„Rennur áreynslulaus eins og bunulækirnir úr Finnbogastaðafjalli“

Össur Skarphéðinsson iðnaðar- og byggðamálaráðherra heldur vart vatni yfir nýútkominni bók Hrafns Jökulssonar Þar sem vegurinn endar, og fer lofsamlegum dómum um hana á bloggsíðu sinni. Hann segir hana meistaralega skrifaða og segir hana einhverja best skrifuðu bók sem hann hafi lesið. Stílnum líkir hann við lífið á Ströndum, segir hann hreinan og tæran, og orðar það svo að frásögnin renni áreynslulaust eins og bunulækirnir úr Finnbogastaðafjalli. Ennfremur skrifar Össur í ritdómi sínum að lestur bókarinnar sé eins og þegar drukkið sé vatn á fjöllum.

Strandamenn gleðjast að sjálfsögðu með Hrafni og kætast yfir þessum góðu dómum ráðherrans. Það vekur líka vonir um að byggðamálaráðherrann taki upp gamlar, góðar og hugsanlega gleymdar tillögur fyrri ríkisstjórnar um að styðja við búsetu og uppbyggingu á svæðinu eins og frekast er unnt. Það er ánægjulegt þegar augu ráðamanna beinast að afskekktum byggðum landsins, sérstaklega þegar haft er í huga að þar býr fólk með sömu vonir og þrár og íbúar í allsnægtum höfuðborgarinnar og nágrannabyggðarlögum. Því miður má oft eingöngu greina ljóðræna spennu í hugum þeirra, þegar fjallað er um hinar dreifðu byggðir. Ritdóm Össurar má finna með því að smella hér.
 
Þess má geta að Hrafn Jökulsson mun lesa úr bók sinni fyrir íbúa um miðbik Stranda fljótlega á Héraðsbókasafninu á Hólmavík.