Rafmagnstruflanir á Ströndum

645-rafmagnsbilun

Rafmagnið fór af Ströndum í gærkveldi um 22:30 og kom í ljós að bilun var á Tröllatunguheiði. Þar hafði raflínan slitnað og slár á staurum gengið úr skorðum. Tæpan hálftíma tók að koma varaaflinu af stað og rafmagni á að nýju, en viðgerð á Tunguheiðinni lauk í morgun kl. 6:25. Þónokkur ísing var á línunni á Tunguheiði. Vindmælir Vegagerðarinnar á Þröskuldum sýndi logn á tímabili í gær, en þar var um svikalogn að ræða því að ísing og klammi höfðu sest á mælitækin. Einnig var rafmagnslaust í Árneshreppi frá því um morguninn þar til kl. 14:50, eftir að línan á Trékyllisheiði slitnaði en þar var einnig dálítil ísing. Víða á Trékyllisheiði er varasamt að vera á ferli nálægt raflínunni þar sem stutt er upp í hana vegna mikilla snjóa.