Pokastöð á Ströndum

Í gær, mánudaginn 23. október, var verkefnið Pokastöðin Strandir“ formlega sett á laggirnar. Þetta kemur fram á vefsíðunni Plastpokalausir Vestfirðir og þessi frétt og meðfylgjandi mynd er einnig fengin þaðan úr hópi fleiri mynda. Þá var kynning á verkefninu og fyrsti saumahittingur í Hnyðju á Hólmavík. Yfir 20 manns á öllum aldri mættu til að leggja verkefninu lið. Hluti af umhverfisnefnd Grunnskólans á Hólmavík lagði fram starfskrafta sína, en grunnskólinn ýtti verkefninu úr vör síðastliðið vor með því að sauma og hnýta 75 fjölnotapoka úr stuttermabolum. Þeir pokar fóru allir í Kaupfélag Steingrímsfjarðar á Hólmavík.

Í gær var lögð áhersla á að sauma gegnsæja poka fyrir grænmeti og ávexti og breyttist Hnyðja í sannkallaða saumaverksmiðju þar sem samtals voru kláraðir 203 pokar, merktir logo verkefnisins Boomerang – Pokastöðin Strandir. 

Pokastöðin Strandir er samfélagsverkefni um gerð fjölnotapoka sem almenningur getur fengið lánaða í staðinn fyrir að kaupa sér plastpoka. Sveitarfélög á Vestfjörðum eru að byrja með verkefni um pokastöðvar sem er að ástralskri fyrirmynd Boomerang Bags sem er fjölþjóðlegt sjálfboðaliðaverkefni. Pokastöðvarnar tengjast verkefninu Plastpokalausir Vestfirðir, sem er eitt af verkefnum Umhverfisvottunar Vestfjarða. 

Pokarnir verða settir á merktar pokastöðvar sem verða fyrst í Kaupfélaginu á Hólmavík og Drangsnesi og í Héraðsbókasafni Strandasýslu. Áætlað er koma upp fleiri Pokastöðvum, í Árneshreppi og á fleiri þjónustustofnunum sem í dag nýta plastpoka.

Áætlað er að hittast að jafnaði einu sinni í mánuði og sauma poka. Næsti hittingur verður mánudaginn 20. nóvember.