Öskur, hringavitleysa og tímasóun

Hinir árlegu Furðuleikar á Sauðfjársetrinu í Sævangi verða á sínum stað á sunnudeginum um Hamingjuhelgina og hefst gleðin klukkan 13. Margar skemmtilegar keppnisgreinar, bæði gamlkunnar og nýjar verða þar á dagskránni og glæsilegt kaffihlaðborð á boðstólum. M.a. verður keppt í Öskri, Stígvélaþeyting, Hringavitleysu og Tímasóun, en sigurvegari í síðastnefndu keppnisgreininni fær glæsilegt úr frá 24 Iceland í verðlaun, splunkunýja tegund sem heitir Gabríella. Einnig verður úrslitaleikur í Heimsmeistaramótinu í Trjónufótbolta á dagskránni. Í fréttatilkynningu frá Sauðfjársetrinu eru öll sem áhuga hafa boðin hjartanlega velkomin á Sauðfjársetrið!