Nýir vendir sópa best

Aðsend grein: Hjörleifur Guðmundsson, Patreksfirði
‘Nýtum sóknarfærin’. Svo segir í hvatningarauglýsingu Sjálfstæðismanna sem birtist nú í hönd farandi kosninga sem fram eiga að fara þann 12. maí n.k. Við hvað er átt með slagorði þessu er ekki gott að segja, ef litið er til þeirrar þróunar sem íbúar dreifbýlisins hafa upplifað af hálfu stjórnvalda á umliðnum árum. Þannig að slagorð þeirra sjálfstæðismanna getur varla bent til þess að við eigum von á betri tíð með blóm í haga fái þeir áframhaldandi umboð til að fara með stjórn landsins að afloknum kosningum.

Að sjálfsögðu munu íbúar Norðvesturkjördæmis gera eins og til er hvatt af þeim sjálfstæðismönnum, sem og íbúar landsins alls, og nýta sér  sóknarfærin.  Og vonandi þá í ljósi sögunnar sem núverandi stjórnarflokkar hafa mótað og skrifað um land sitt og þjóð á umliðnum 12 árum.  Eða hafa þeir stjórnarliðar sem hafa verið fulltrúar okkar á þingi fyrir norðvesturkjördæmi allt frá 1991, ekki notið nægjanlegs trausts  kjósenda sinna og þingflokka til að koma málum sínum og umbjóðenda sinna fram?  Er það virkilegt að þeir Sturla og Einar Kristinn hafi þurft 16 ár á þingi til að sjá að stjórnarstefnan er að ganga frá búsetuskilyrðum í dreifbýli landsins?  Er þá hægt að ætlast til þess að Einar Oddur eða Magnús Stefánsson, sem hafa þó setið á þingi í 12 ár, hafi nokkurn skilning á málefnum kjördæmisins?  Þegar þeir reyndari eru nú að átta sig á því að enn séu ónýtt sóknarfæri fyrir bættri byggð sem kjósendur eigi að virkja með því að binda trúss sitt við þá og flokka þeirra í fjögur ár til viðbótar.  Á það að duga Kristni H að hafa kastað sér fyrir borð nú á síðustu metrunum og yfirgefið stjórnarskútuna og vera sem rekald á hinni pólitísku óánægjuströnd, þangað sem þeir leita sem verða fyrir skipbroti í leit sinni að pólitískum áhrifum?  Ég held ekki. Á það ekki að teljast nægjanlegur reynslutími fyrir þann sem vill teljast sæmilega marktækur í störfum sínum að hafa setið á þingi í 12-16 ár eins og stjórnarþingmenn norðvesturkjördæmis hafa gert? 

Og óska nú eftir  umboði til næstu fjögra ára til áframhaldandi þingsetu.  Víst er að margur hefur setið skemur á þingi en þessir herramenn og skilað betra búi til kjósenda sinna og héraða sem þeir voru fulltrúar fyrir.  Því skal þó haldið til haga og er það fullyrt að þeir félagar allir, hver með sínu lagi, hafa gert allt sem þeir kunna og geta til að bæta búsetuskilyrði umbjóðenda sinna og er árangur af störfum þeirra öllum ljós.  Skulu hér nokkur dæmi nefnd sem hljóta að vera einkunn fyrir þá stjórnarstefnu sem rekin hefur verið í landinu í tíð núverandi ríkisstjórnar.  Á bb.is þann 13.02.07 segir: „612 manns fluttu frá Vestfjörðum í fyrra.“  Hvað þýðir þessi tala ef lesandi setur hana upp í mynd til að sjá þann alvarleika sem hér er á ferðinni?  Á Patreksfirði bjuggu 638 íbúar þann 1. des s.l, Bíldudal 183 og í sveitunum 116; sem sagt í Vesturbyggð samanlagðri 937 íbúar.  Árið 1990 bjuggu á Patreksfirði 926 íbúar og svarar fækkunin til sem nemur öllum íbúum Tálknafjarðarhrepps; þar voru  294 búsettir þann 1. apríl 2007.

Í svæðisútvarpi norðurlands þann 18.4.2007 segir að á kjörskrá í norðvesturkjördæmi hafi fækkað um 1635 kjósendur frá seinustu kosningum til alþingis.  Sýnir þessi tala líkt og þær fyrri hvaða dauðans alvara er á ferðinni gagnvart hinum dreifðu byggðum landsins og lýsir því tómlæti og virðingarleysi sem núverandi stjórnvöld hafa sýnt af sér, þrátt fyrir fögur loforð um annað sem kjósendur þekkja í öllum myndum frá hendi frambjóðenda.  En lítum aðeins á áðurnefnda tölu, 1635.  Hún slagar hátt upp í heildaríbúafjölda Snæfellsbæjar sem voru 1709 þann 1.apríl s.l.  Hún er hærri en samanlagður íbúafjöldi Stykkishólms og Helgafellssveitar,  Eyja og Miklaholtshrepps, þar sem búa samtals 1346 íbúar.  Hún er líka hærri en heildaríbúafjöldi í vestur og austur Barðastrandasýslum sem voru 1481 þann 1. apríl s.l.  Tölur þær sem hér er vitnað til eru fengnar hjá áðurnefndum fjölmiðlum sem og Hagstofu Íslands.

Hægt er að gera sér ýmsar myndir sem kalla á alskyns spurningar, sem hver fyrir sig verður að svara.  En undirritaður spurði sig; ef þessir 1635 kjósendur sem fækkuninni nam í norðvesturkjördæmi yrðu að vísitölufjölskyldu, hver yrði þá útkoman?  3515 íbúar sem svarar til að allir íbúar Ísafjarðarbæjar hefðu flutt á brott síðastliðin fjögur ár, að íbúum Flateyrar og Þingeyrar undanskildum.  Eða að öll Strandasýsla og Húnavatnssýsla væri í eyði lögð á fjórum árum.  Þetta er ekki fögur mynd af þróun byggðar en sönn samt, púslað saman úr tölum Hagstofu Íslands.  Þarf nokkuð að segja meira? Er þetta ekki stjórnarstefnan sjálf sem rekin hefur verið í landinu á undangengnum 12 árum studd dyggilega af  stjórnarsinnum, sem enn bjóða sig fram til að gæta hagsmuna okkar hér eftir sem hingað til? Stefna sem leitt hefur til meiri eignaupptöku en dæmi eru um þar sem eigur íbúanna eru að engu gerðar víða í norðvesturkjördæmi og á norðausturhorni landsins. 

Því skal tekið undir orð Guðmundar Halldórssonar fyrrum formanns smábátafélagsins Eldingar sem hann lét falla í svæðisútvarpi Vestfjarða fyrir skömmu þar sem hann krafist þess af stjórnvöldum: „Að kæmi ekki til gjörbreyttrar stefnu af hálfu stjórnvalda gagnvart dreifbýlinu þá yrðu að koma til eignanámsbætur á grundvelli þeirra verðmæta sem núverandi stjórnarstefna hefur rænt dreifbýlið á umliðnum árum.“ Trúir því nokkur maður að þeir félagar, með formann sinn Geir H Haarde í broddi fylkingar, sem lýsir því yfir seint og snemma að áfram verði  haldið óbreyttu stjórnarfari fái Sjálfstæðisflokkurinn umboð til þess, þjóðin hafi það svo ljómandi gott að meðaltali eins og hann segir, bjóði nú fram bætur vegna stjórnarstefnu sinnar eins og Guðmundur telur að þeir eigi að gera?  Eða eigum við að trúa því að neyðaróp vestfirskra sveitarfélaga sem nú er kynnt í 37 liðum, ásamt einni olíuhreinsistöð, verði þeirra framlag á komandi árum, eins og umræðan úr þeirra herbúðum bendir til?  Og hefji með því nýja sókn fyrir hinar dreifðu byggðir landsins til sjávar og sveita, eftir að hafa fengið öll þau tækifæti sem hugsast getur á liðnum 12-16 árum?  Trúi því hver sem vill. 

Því hvet ég alla sem vilja betri byggð og bætt kjör að hefja NÝJA SÓKN byggðum til heilla sem og landinu öllu.  Oft var þörf en nú er nauðsyn.  NÝIR VENDIR SÓPA BEST.

Hjörleifur Guðmundsson, Patreksfirði.