New York, Akureyri, Lundúnir og Ísafjörður

Aðsend grein: Einar K. Guðfinnsson
Unga fólkið sem svaraði af mikilli skynsemi spurningum um framtíð sína og þjóðfélagsins og sem birtist á myndbandi aðalfundi Samtaka Atvinnulífsins dró fram athyglisverða sýn á mál sem við ræðum stöðugt og án afláts í almennri þjóðfélagsumræðu. Unga fólkið var bjartsýnt. Það hafði skoðanir. Það var frjálslynt og var tilbúið til að takast á við hið óþekkta. Myndbandið hafði verið búið til í framhaldi af afar athyglisverðri skoðanakönnun sem SA gerði á meðal ungs fólks þar sem lagðar voru fyrir fjölþættar spurningar.

Aukin áhersla á menntun

En unga fólkið gerði líka kröfur. Það vissi að til þess að við gætum staðist samkeppni við heiminn og að hér væru góð lífskjör þá þyrfti að auka áherslu á menntamál og vísinda og þróunarstarfsemi af hvers konar toga. Þetta er rétt og satt. Og þetta höfum við einmitt verið að gera síðustu árin. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra vakti einmitt athygli á því í ræðu við  á aðalfundi Samtaka Atvinnulífsins er hann sagði: "Framlög ríkisins til fræðslumála hafa aukist um tæplega 60% og þar af hafa framlög til háskólastigsins aukist um heil 80% að raungildi." 

Þetta er þróunin á 8 árum, vel innan við áratug, eða frá árinu 1998. Þetta er vitaskuld alveg ævintýralegur vöxtur og segir mikla sögu um áherslu okkar undangengin ár. Við höfum semsé verið að vinna í anda þess sem unga fólkið var að leggja áherslu á og er það vissulega vel. Þannig hefur verið reynt að búa í haginn fyrir framtíðina.

Hvar viltu búa?

En það var fleira sem athygli vekur. Unga fólkið var líka spurt að því hvar það vildi búa. Og svörin komu svo sem ekki endilega á óvart, en voru þægileg staðfesting á því að þarna færi ungt  fólk með opinn huga. Það var einnig ánægjulegt.

Í fyrsta lagi var áberandi hve unga fólkið leit á veröldina alla sem viðfangsefni sitt. Ekki eitt byggðarlag eins og Reykjavík, eða höfuðborgarsvæðið, eins og maður skynjar svo oft í hugarheimi þeirra sem eldri eru. Unga fólkið er greinilega miklu víðsýnna en kynslóðirnar sem á undan koma að þessu leyti. Og þetta æskufólk er að því leytinu líka mun víðsýnna en kynslóð útrásarmannanna okkar sem nú geysast sem hraðast að það er áhugasamara um búsetu á landsbyggðinni og getur séð þar möguleika á búsetu og starfi. Útrásarmennirnir geysast til Lundúna, Stokkhólms, Kaupmannahafnar og Ameríku en virðast koma illa auga á tækifærin á landsbyggðinni. Það er illt með svo öfluga menn.

Það kom svo sem ekki á óvart að um helmingur aðspurðra í skoðanakönnun SA vildi ekki búa úti á landi. Það er skiljanlegt vegna þess að þar eru atvinnutækifærin fábrotnari. Augljóst er af samhenginu að slíkt myndi breytast með aukinni atvinnu fjölbreytni. Ekki er ólíklegt miðað við þróunina að slíkt viðhorf gæti breyst giska skjótt.

New York, Akureyri, London, Ísafjörður

En hyggjum að annarri hlið málsins. Þetta segir okkur líka að um helmingur unga fólksins gæti sumsé hugsað sér búsetu úti á landi. Það er í sjálfu sér jákvætt. Gleymum því ekki að mikill meirihluti landsmanna býr nú á höfuðborgarsvæðinu. Þar er ennþá stærra hlutfall ungs fólks sem þangað hefur farið til náms eða í atvinnuleit. Samt vill þetta stór hluti unga fólksins búa á landsbyggðinni. Þetta eru góð tíðindi og ríma við nokkurra ára könnun sem Stefán Ólafsson prófessor vann fyrir okkur sem sátum þá í stjórn Byggðastofnunar.
Heimsþorpið, þekkingarþorpið, þorpið.

Það er nefnilega þannig að ungt fólk, sem er jákvætt gagnvart alþjóðavæðingu er miklu víðsýnna en kynslóðirnar sem á undan fóru. Það lítur ekki á "þorpið" sitt  (les höfuðborgarsvæðið) sem hið eina sem máli skiptir. Heimsmynd þess er svo miklu víðfeðmari. Þess vegna er það jafnt gildur kostur í hugum þess að vinna á Ísafirði sem Lundúnum, New York sem Egilsstöðum, Brussel sem Selfossi, og Barcelona sem Akureyri og þess vegna Reykjavík eftir atvikum.  Rétt eins og hún sagði unga stúlkan sem rætt var við á myndbandi SA aðspurð um hvar hún kysi að búa og starfa; Í New York, Akureyri eða London, svaraði hún. Og önnur svaraði ákveðið: Ég ætla að búa á Ísafirði.

Úr því ég ætla ekki lengur að búa í heimsborg …

Sem minnti mig á unga fólkið sem ég hitti fyrir all nokkrum árum og flust hafði frá evrópskri heimsborg og í bæ á landsbyggðinni hér á landi. Þegar ég spurði um hvort þetta væru ekki viðbrigði litu þau á mig og sögðu efnislega: Við höfum búið í evrópskri stórborg og okkur langaði heim til Íslands að nýju. Eftir að við höfðum tekið ákvörðun um að gera það, þá var ekki svo mikill munur séð frá sjónarhóli þess sem býr í milljónaborg hvort maður settist að á Akureyri, Reykjavík, Sauðárkróki eða Selfossi, svo dæmi sé tekið. Allt eru þetta litlir staðir, sem ekki líkjast stórborgarlífinu sem við þekkjum og úr því að við höfðum tekið að ákvörðun um að yfirgefa það þá var allt eins hægt að setja sig niður  utan hins íslenska höfuðborgarsvæðis.

Og svo má bæta við söguna. Þetta gerðu viðmælendur mínir og búa enn á landsbyggðinni sæl og glöð.
Það er gaman að lesa viðhorf ungs fólks. Þau munu móta framtíð Íslands innan ekki svo langs tíma. það er greinilegt að unga fólkið sem er nú að vaxa úr grasi er áræðið, frjálslynt og víðsýnt. Þau skyggnast víða eftir tækifærunum og sem betur fer skynja þau það að Ísland er land tækifæranna.

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra
og þingmaður Sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi

www.ekg.is