Meistaranám í sjávartengdri nýsköpun

580-kraeklingur1
Hagnýtt meistaranám í sjávartengdri nýsköpun er nýstárlegt nám sem Háskólasetur Vestfjarða er að ýta úr vör í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þar læra nemendur að skapa sér atvinnutækifæri. Sjávartengd nýsköpun er vítt skilgreind, enda á hún sér stað í fjölmörgum greinum: Sjávarútvegi og eldi, matvælaframleiðslu, í tæknigeiranum og orkuframleiðslu, en ekki síður í ferðamennsku, menningu og fleiru. Kynningarfundur verður um námið á Café Riis á Hólmavík fimmtudaginn 26. september kl. 17-18. Boðið verður upp á kaffi og með því.

Námið gefur nemendum innsýn í málefni hafs og stranda og í eðli og skilyrði nýsköpunar og reksturs örfyrirtækja. Hver og einn nemandi mótar einstaklingsmiðaða námsáætlun sem tekur mið af fagtengdum námskeiðum, rekstrartengdum námskeiðum og þróun nýsköpunarhugmyndar viðkomandi. Nemendur vinna nýsköpunarverkefni sitt í nánu samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og vestfirskt atvinnulíf. Þar sem um einstaklingsmiðað nám er að ræða er fjöldi nemenda takmarkaður.