Mannát, dauði og djöfull!

Tröllin

Síðustu tvö ár hafa verið haldnar vinsælar og vel sóttar þjóðtrúarkvöldvökur í Sauðfjársetrinu á Sævangi og nú er fyrirhugað að halda slíka í þriðja sinn. Yfirskrift þjóðtrúarkvöldvökunnar er heldur hrikalegt: Mannát, dauði og djöfull. Því má telja víst að fjallað verði um heldur óhugnanleg atriði í íslenskri þjóðtrú og þjóðsögum á gamansaman hátt að þessu sinni. Það er Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðinemi við HÍ sem heldur utan um kvöldvökuna og að venju verður á boðstólum yfirnáttúrulegt kvöldkaffi með margvíslegum kræsingum og tónlistaratriði. Skemmtunin hefst kl. 20:30 föstudagskvöldið 11. september. Verð fyrir kvöldvöku og kaffi er 1.500.-

Þau sem flytja erindi á kvöldvökunni eru:

Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðinemi: Mannát á Íslandi
Björk Bjarnadóttir, umhverfis- og þjóðfræðingur: „Skrattinn fór að skapa mann …“
Jón Jónsson, þjóðfræðingur: Þjóðtrú tengd dauðanum

Frítt verður inn á sýningar safnsins í tilefni dagsins, fyrir þá sem vilja skoða þær sýningar sem eru uppi í Sævangi um þessar mundir:

Sauðfé í sögu þjóðar
Brynjólfur Sæmundsson og störf héraðsráðunauta
Manstu? Ljósmyndir Tryggva Samúelssonar
Álagablettir

Kvöldvakan er haldin í tengslum við sýninguna Álagablettir sem hefur verið uppi í Sævangi frá þjóðtrúardeginu mikla 7. sept. 2013 (7-9-13). Verkefnið Álagablettir nýtir stuðnings Safnasjóðs og Menningarráðs Vestfjarða.

Meðfylgjandi ljósmynd tók Jón Jónsson af tröllunum í Drangavík í Kollafirði sem reyndu að grafa Vestfirði frá meginlandinu.