Maddama Framsókn níræð

Indriði Aðalsteinsson - ljósm. af vefnum siv.is.Aðsend grein: Indriði Aðalsteinsson, Skjaldfönn
Áður var hún ung og keik
með eftirsóknarverðan búk.
Núna, gömul, visin, veik
og valdasjúk.

Afi minn var einn af stofnendum Framsóknar en móðir mín „jarðaði“ frambjóðendur annarra flokka ef þeir komu í eldhúsið til hennar. Undirritaður var lengi í fótgönguliðinu, náði þó að komast í miðstjórn SUF og á framboðslista hér á Vestfjörðum.

Á formannsdögum Ólafs Jóhannessonar með sína hægri sveiflu var vinstri armurinn, sem ég tilheyrði, höggvinn af maddömunni. En miðjuflokkur sem aðeins á sér þann kost að laða til sín fylgi frá hægri verður smátt og smátt hægrimennsku að bráð, eins og nú er komið á daginn með afmælisbarnið. Vegna fortíðar minnar hef ég enn tengsl inn á gafl hjá maddömunni og fyrri samherjar hringja stundum, þegar pólitísk andnauð verður þeim óbærileg.

Fé í fyrirrúmi, valdagræðgi og spilling

Uppdráttarsýkin hófst að marki í valdatíð Ólafs en Steingrími Hermannssyni tókst nokkuð að halda sjó enda naut hann víðtækra vinsælda. Arftaki hans, Halldór Ásgrímsson, hefur aldrei þolað gagnrýni og raðaði strax jábræðrum í kringum sig, hinum var ýtt á dyr.

Flokkurinn var dauðhreinsaður af náttúruverndarfólki, fest voru kaup á Kristni H. Gunnarssyni, sem er vænn maður en í engum takti við hirð Halldórs. Brátt logaði flokkurinn í illdeilum stafnanna á milli. Sem faðir kvótakerfisins auðgaðist Halldór ekki bara bærilega sjálfur heldur hrukku líka molar af borðum sægreifanna til hinnar gjaldþrota maddömu og síðar enn meira vegna einkavinavæðingar og sýsls með Sambandsfyrirtæki.

Kárahnjúkar, kvóta- og þjóðlenduránið, einkavinavæðingin og undirgefni við Stóra-Íhaldið hafa sviðið fylgið af Framsókn, ásamt fjölbreyttu sukki og spillingu svo sem Byrgismálinu þar sem framsóknarmenn virðast vera undir, yfir og allt um kring.

Halldór og Írak

Davíð Oddsson varð pólitískur banamaður Halldórs með því að tæla hann með sér í Íraksstríðið. Það, ásamt áðurnefndum ávirðingum og Evrópustefnu Halldórs, gerði formannaskipti óhjákvæmileg.

Þegar Halldór samdi við Davíð um forsætisráðherrastólinn eftir síðustu kosningar var sú vegsemd ekki fyrir Framsókn heldur Halldór persónulega. Síðan var stólnum skilað til Stóra-Íhaldsins svo Guðni kæmist ekki í hann og Halldór lagði sig í framkróka við að draga hann með sér í fallinu. Einnig þurfti að koma Valgerði í skjól en milli hennar og Halldórs hefur hnífurinn aldrei gengið. Eru þau hjúin skýrust dæmi um pólitíska flóttamenn í eigin landi.

Á banabeði

Nú er staða maddömunnar sú að engar líkur eru á að aftur komi betri tíð með blóm í framsóknarhaga. Hún fær engin prik fyrir að hafa leitt mammon til öndvegis í þjóðfélaginu undir kjörorðinu „Græðgi er góð“. Því síður fyrir að geta ekki horfið frá álversvillu síns vegar. Við byggðafólk höfum enga samúð með flokki sem kom sameign þjóðarinnar, fiskinum í sjónum, í hendurnar á fáeinum gróðapungum og gerir út á okkur þjóðlenduræningjasveitir. Því síður með Valgerði sem hækkaði rafmagnsreikningana okkar um 20-40% með vanhugsuðum og alls óþörfum orkulagabreytingum. Eigum við að fyllast lotningu yfir því hvað Framsókn ferst vel úr hendi, þvert á orð og eiða, að hagræða Ríkisútvarpinu á einkavæðingarhöggstokki Stóra-Íhaldsins?

Ætlar framsóknarfólk að fyrirgefa Jóni, Guðna, Siv, Valgerði og Magnúsi það að láta Halldór komast upp með Írakssvívirðuna? Þá mundi enn sannast af hverju útbrunnar eldspítur hafa lengi verið kallaðar framsóknarmenn. Nýi formaðurinn, sem slær úr og í, er opinn í báða enda og getur í hvorugan fótinn stigið, herðir bara á hrapinu. Miðjan er löngu töpuð, ekkert skjól hjá SÍS og sveitafylgið horfið til VG. Aldrei hef ég heyrt eins víðtækan haturs- og fyrirlitningartón í garð stjórnmálaafls og Framsóknar nú. Til að klifra upp úr þeim táradal sem formannstíð Halldórs Ásgrímssonar hefur leitt maddömuna í duga engar 400-500 milljónir fyrir kosningar til að hylja græðgisglottið, sparsla í ólifnaðarhrukkurnar og kæfa ódauninn.

Því á framsóknarfólk, réttsýnt, friðsamt og með sjálfsvirðingu, engan annan kost í vor en rífa þetta þjóðfélagsillgresi upp með rótum og varpa því út í ystu myrkur.

Indriði Aðalsteinsson, bóndi á Skjaldfönn