Ljósmynd vikunnar: Elsti flugfarþeginn, 1954


Ljósmyndasafn Reykjavíkur birtir ljósmynd vikunnar á vefnum www.ljosmyndvikunnar.is. Um daginn var þar birt skemmtileg mynd sem tekin var af Pétri Thomsen og fréttamoli úr Morgunblaðinu frá 1954 um elsta flugfarþega sem þá hafði ferðast með flugvél. Myndin er af því þegar Guðrún Guðbrandsdóttir (f. 1856) frá Hrófá í Steingrímsfirði gengur frá borði Skýfaxa, Catalina-flugbáts Flugfélags Íslands, á Reykjavíkurflugvelli eftir flug frá Hólmavík til Reykjavíkur 1. október 1954. Þegar myndin var tekin taldist Guðrún vera elsti Íslendingurinn sem ferðast hafði með flugvél, en hún var þá 98 ára gömul.

Í fréttinni í Morgunblaðinu 2. október segir:

„Þetta var ósköp þægilegt, sagði Guðrún. Mér leið dæmalaust vel alla leiðina og það var alveg eins og ég sæti á rúmstokknum mínum heima hjá mér að svífa í loftinu. Ég var ekki neitt hrædd við að fara upp í loftið, þótt þetta væri í fyrsta sinnið, og flugmennirnir voru ósköp greiðugir við mig. Ferðin tók ekki nema rúman klukkutíma og þá var ég komin hingað til höfuðborgarinnar í fyrsta sinn.“

Guðrún náði hundrað ára aldri, en hún lést í mars 1957.