Ljóðasamkeppni fyrir ungt fólk

Þöll, samstarfshópur um barnamenningu á bókasöfnum, efnir til ljóðasamkepni fyrir ungt fólk á aldrinum 9-16 ára. Héraðsbókasafn Strandasýslu er eitt af söfnunum sem tekur þátt í þessu verkefni og öllum grunnskólum og börnum á þessum aldri á Ströndum er boðið að taka þátt í keppninni. Skilafrestur á ljóðum til Héraðsbókasafnsins á Hólmavík er til 14. mars og má hver keppandi senda inn þrjú ljóð mest. Héraðsbókasafnið kemur þeim svo áfram til aðaldómnefndar. Þátttakendur skiptast í tvo aldurshópa, 9-12 ára og 13-16 ára.


Ljóðunum þarf að fylgja nafn höfundar, aldur, heimilisfang og símanúmer, þegar þeim er skilað. Veitt verða verðlaun fyrir þrjú bestu ljóðin í hvorum flokki á landsvísu, en Héraðsbókasafn Strandasýslu hyggst einnig veita aukaverðlaun fyrir bestu ljóðin sem berast því. Verðlaun verða afhent í tengslum við alþjóðadag bókarinnar 23. apríl eða í viku bókarinnar. Vinningsljóðin ásamt úrvali ljóða úr keppninni verða gefin út á bók.

Alls eru 21 bókasafn víða af landinu sem taka þátt í þessari samkeppni.