Ljóða- og smásögukeppni á Ströndum

645-bangsi6

Dagana 17.-23. nóvember (eftir mánuð) verður haldin Bókmennta- og ljóðavika í Strandabyggð. Á dagskránni verður m.a. bókakaffi, ljóða- og smásögukeppni og heimsókn frá Andra Snæ Magnasyni rithöfundi. Það er yngri kynslóðin á Ströndum sem stendur fyrir þessari hátíð með stuðningi Strandabyggðar og fara þar fremst í flokki Sunneva Þórðardóttir, Ísak Þrastarson og Bára Örk Melsted, en hugmynd þeirra að verkefninu vann til verðlauna í samkeppni Landsbyggðarvina á síðasta ári. Bókmennta- og ljóðavikan er með síðu á Facebook og eru Strandamenn allir hvattir til að taka virkan þátt í þessari góðu skemmtun. Rithöfundar og skáld á svæðinu eru jafnframt eindregið hvött til að taka þátt í ljóða- og smásögukeppninni en dómnefndina í henni munu skipa Bára Örk Melsted, Eiríkur Örn Nordahl og Andri Snær Magnason.