Listsýning: Þæfðar myndir í Sauðfjársetrinu

645-saevangur
Listsýning siglfirsku listakonunnar Margrétar Steingrímsdóttir verður opnuð á Sauðfjársetri á Ströndum í dag, sunnudaginn 23. júní kl. 17:00, – á afmælisdegi Sauðfjársetursins. Allir eru  velkomnir á opnunina. Sýning Margrétar verður uppi í allt sumar, en Sauðfjársetrið er opið milli 10-18 alla daga. Í haust er síðan fyrirhugað að Margrét haldi námskeið á Sauðfjársetrinu í þæfingu og gerð listaverka, mynda og skúlptúra úr þæfðri ull, en sýningin og námskeiðahaldið er styrkt af Menningarráði Vestfjarða.

Margrét er handverkskona sem hefur unnið sem leiðbeinandi í textíl og myndmennt í grunnskólum síðan 1981. Hún kynntist fyrst ullarþæfingu á námskeiðum á vegum Kennarasambands Íslands árin 1989 og 1994. Það var svo ekki fyrr en hún sótti námskeið á Punktinum 1999 sem hún féll fyrir þæfingunni. Árið 2006 og 2008 sótti Margrét námskeið hjá dönskum þæfingarsnillingi Inge Marie Regnar. Þar lærði hún mismunandi tækni sem hún hefur nú útfært og notar í þessar myndir.

Í myndir sínar notar Margrét ýmis efni með ullinni svo sem glerperlur, prjónaða dúka, prjónuð efni, silki-merinogarn og mikrogarn o.fl. Einnig hefur Margrét verið að þæfa fatnað og allskonar fylgihluti. Þar notar hún silki, silkisiffon, grisjur, organsa og fleiri efni með ullinni. Margrét er hrifnust af íslensku ullinni en notar einnig merino-ull.

Hægt er að sjá vörur Margrétar á facebook.com/maggahannar.steingrimsdottir.