Listi sameinaðra borgara

strandir.is hafa haft fregnir af því að fram sé kominn annar listi sem mun bjóða fram í sameinuðum Hólmavíkur- og Broddaneshreppum í komandi sveitarstjórnarkosningum. Þar er um að ræða H-lista Sameinaðra borgara, en hann bauð einnig fram í síðustu kosningum og fékk þá tvo menn kjörna. Már Ólafsson sjómaður á Hólmavík skipar fyrsta sætið, Daði Guðjónsson sjómaður er í öðru sæti og Jón Stefánsson bóndi á Broddanesi í þriðja sæti. Frá þessu segir á ruv.is. Ekki hefur frést af fleiri framboðum í nýja sveitarfélaginu, en fresturinn til að leggja inn lista rennur út á hádegi á morgun.

H-listi Sameinaðra borgara er þannig skipaður samkvæmt fréttum ruv.is, en ekki kemur fram hverjir eru í sætum 6-10:

1. Már Ólafsson
2. Daði Guðjónsson
3. Jón Stefánsson
4. Eysteinn Gunnarsson
5. Ólöf Jónsdóttir

Ekkert hefur heyrst af listaframboðum í öðrum sveitarfélögum á Ströndum og má því gera ráð fyrir að í þeim verði óhlutbundin kosning, en þá velja kjósendur einstaklinga úr sveitarfélaginu. Allir íbúar 18 ára og eldri geta átt von á því að vera kosnir í hreppsnefnd þegar um óhlutbundna kosningu er að ræða. Hvort um slíka kosningu verður að ræða kemur þó betur í ljós eftir hádegi á morgun.