Leikskólinn Lækjarbrekka 25 ára

645-amstur3

Leikskólinn Lækjarbrekka á Hólmavík var tekinn formlega í notkun 31. október 1988, fyrir 25 árum, og var opið hús á leikskólanum af því tilefni. Byrjað var að byggja leikskólann við Brunngötu 2 á Hólmavík árið 1985, eftir teikningu arkitektanna Guðmundar Kr. Guðmundssonar og Ólafs Sigurðssonar sem margir íslenskir leikskólar höfðu tekið mið af. Á sama tíma var tekin í notkun afgirtur leikvöllur með leiktækjum; sandkassa, vegasalti, rólum, rennibraut o.fl. Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt teiknaði lóðina.

Leikskólinn var fullsetinn strax á fyrsta starfsári, en 17 börn voru þá í vistun fyrir hádegi og sami fjöldi eftir hádegi. Alls voru því 34 börn í skólanum, en síðustu ár hefur svipaður fjöldi barna verið í leikskólanum, munurinn er sá að nú er langflest börnin þar bæði fyrir og eftir hádegi.

Leikskólanum var gefið nafnið Lækjarbrekka árið 1997. Sumarið 2002 hófust síðan langþráðar framkvæmdir við stækkun húsnæðisins um helming og í ágúst árið 2003 var tekið í notkun hið nýja rými, en leikskólabyggingin var þá samtals orðin 227 m². Nú eru uppi hugmyndir um frekari stækkun skólans.

Leikskólastjóri nú er Sigrún Ásgeirsdóttir, í fjarveru Ingibjargar Ölmu Benjamínsdóttur sem er í fæðingarorlofi.

leik1 leik2 leik3 leik4 leik5 leik6 leik7

 Leikskólinn Lækjarbrekka 25 ára – ljósm. Jón Jónsson