Land hamingjunnar á Hólmavík

LAND HAMINGJUNNAR er yfirskrift tónleika Bjargar Þórhallsdóttur sópransöngkonu, Elísabetar Waage hörpuleikara og Hilmars Arnar Agnarssonar orgelleikara. Þau halda þrenna tónleika á næstu dögumog þar á meðal eru tónleikar í Hólmavíkurkirkju fimmtudaginn 28. júlí kl. 20:00. Á efnisskránni eru íslensk sönglagaperlur og trúarsöngvar eftir Atla Heimi Sveinsson, Hjálmar H. Ragnarsson, Emil Thoroddsen, Gunnar Reyni Sveinsson, Karl Ó. Runólfsson og Sigvalda S. Kaldalóns. Tónlistin er flutt í nýjum og óvenjulegum búningi þar sem samspil hörpunnar og orgelsins gefur lögunum sérstaklega fallegan blæ.

Samstarf Bjargar og Elísabetar hófst haustið 2006 og hafa þær síðan haldið fjölmarga tónleika víða um land, m.a. á Sumartónleikum í Akureyrarkirkju og í Hóladómkirkju, Listasumri á Akureyri, í Reykjavík, í Mývatnssveit og víða á Vestfjörðum.

Árið 2008 voru þær fulltrúar Íslands á norrænu tónlistarhátíðinni NICE á Englandi og komu fram í breska ríkisútvarpinu BBC. Síðastliðin þrjú ár hafa þær haldið tónleika í Strandarkirkju á Maríumessu og þetta er fimmta árið í röð sem þær halda tónleika í Sumartónleikaröð Hóladómkirkju. Í ár njóta þær liðsauka Hilmars Arnar Agnarssonar dómorganista í Landakotskirkju.