Kvenmaður í tippleikinn

Um helgina verður brotið blað í tippleik strandir.is, en þá verður kvenmaður þátttakandi í fyrsta skipti. Jón Jónsson, sem féll út úr tippleiknum um síðustu helgi eftir frábært gengi, skoraði á systurdóttur sína Guðmundínu Arndísi Haraldsdóttur (Gummó) að etja kappi við Höskuld Birki Erlingsson. Guðmundína tók áskoruninni af mikilli kvenmennsku og situr sennilega við tölvu úti í Danmörku akkúrat núna og hamrar inn harðsvíraða spá fyrir leiki helgarinnar, en hún gerði það gott í kvennaboltanum á Ströndum á sínum tíma.

Það verður því afar athyglisvert að fylgjast með tippleiknum nú um helgina og það má ætla að Guðmundína eigi stuðning kynsystra sinna næsta vísan. Spár þeirra Gummóar og Höskuldar ættu að birtast hér á vefnum snemma á föstudaginn.