Krossneslaug ímynd sundlauga á Íslandi

KrossneslaugFlugfélagið Iceland Express er með Vestfirði í fyrirrúmi á heimasíðu sinni þessa dagana við að auglýsa Íslandsferðir. Á heimasíðu flugfélagsins skreyta þrjár myndir frá Vestfjörðum forsíðu hennar og þar á meðal Krossneslaug í fjörukambinum fyrir opnu úthafinu norðan við Norðurfjörð undir fyrirsögninni; Fancy a Swim? Come to Iceland. Aðrar ljósmyndir frá Vestfjörðum eru frá Rauðasandi og af fossinum Dynjanda. Krossneslaug er af mörgum talin eitt af sjö sundundrum veraldar og að Bláa lónið megi sín lítils í þeim samanburði. Krossneslaug er vinsæll viðkomustaður og þeir sem hafa einu sinni notið laugarinnar hafa yfirleitt orð á því að í henni syndi þeir örugglega aftur.

Icelandair er einnig með auglýsingaherferð með Vestfirði í fyrirrúmi á prjónunum, en í næstu viku fara nokkrir fulltrúar vestfirskar ferðaþjónustu til Kaupmannahafnar í boði markaðsstofu Icelandair til Kaupmannahafnar. Það er Jón Páll Hreinsson forstöðumaður Markaðsstofu Vestfjarða sem hefur skipulagt ferðina í samráði við Icelandair. Sigurður Atlason frá Strandagaldri verður fulltrúi Strandamanna í ferðinni og kynnir það sem er í boði á svæðinu fyrir norrænum ferðaskrifstofum og fjölmiðlum.

Krossneslaug
Kynningin á forsíðu Iceland Express.
Sjá www.icelandexpress.com