Kosið til stjórnlagaþings

Kosningar til stjórnlagaþings fara fram um land allt á morgun, laugardaginn 27. nóvember. Ein kjördeild verður í Strandabyggð og verður kjörstaður í íþróttamiðstöðinni á Hólmavík. Kjörstaður verður opinn frá kl. 11:00 -18:00. Kjósendum er bent á að þeir þurfa að gera grein fyrir sér með fullnægjandi hætti á kjörstað, t.d. með því að framvísa skilríkjum. Nokkrir Strandamenn eru í framboði til stjórnlagaþingsins, þar á meðal Eva Sigurbjörnsdóttir í Djúpavík, Jón Pálmar Ragnarsson frá Kollsá í Hrútafirði, Stefán Gíslason frá Gröf í Bitru og Birna Vilhjálmsdóttir frá Kollsá í Hrútafirði.


Aðsendar greinar vegna stjórnlagaþingsins hafa ekki verið birtar hér á strandir.is sökum tímaskorts ritstjórnar til að sinna vefnum, en ákveðið var að gera undantekningu í dag með greinar frá Strandamönnum í hópnum. Vefurinn strandir.is hvetur alla sem vettlingi geta valdið til að mæta á kjörstað og tryggja að gott fólk verði valið til að glíma við stjórnarskrána.