Kaldalónshátíð – leiksýning og tónleikar í Dalbæ


Kaldalónshátíð, leiksýning og tónleikar, verður í Dalbæ á Snæfjallaströnd sunnudaginn 14. júlí. Tónskáldið og læknirinn Sigvaldi Kaldalóns átti litríka ævi. Hann tók við læknisembætti í einu afskekktasta læknishéraði landsins, Nauteyrarhéraði, árið 1910. Víst var lífið þar ekki einsog í einföldum söngleik. Þrátt fyrir það samdi Sigvaldi margar af sínum helstu sönglagaperlum á Kaldalónsárunum.

Rakin verður þessi litríka saga tónskáldsins fyrir vestan og fluttar helstu perlur hans í leiksýningu á vegum Kómedíuleikhússins í Dalbæ sunnudaginn 14. júlí. Hér er um að ræða einstakt tækifæri til að sjá sýninguna í nágrenni Kaldalóns þar sem mörg þekktustu lög tónskáldsins urðu til. Höfundur og leikari er Elfar Logi Hannesson. Dagný Arnalds leikur á píanó. Leikmynd, búningar og leikstjórn eru í höndum Marsibil G. Kristjánsdóttur.

Sögusýning um Kaldalóns er í Dalbæ og verður jafnframt sögustund um ár Kaldalóns við Djúp. Viðar Guðmundsson og Snorri Hjálmarsson verða að leiksýningu og sögustund lokinni með tónleika með nokkrum helstu perlum tónskáldsins. Miðaverð er 2.900. Markaðsstofa Vestfjarða styrkir viðburðinn.