Hvað er að?

Aðsend grein: Guðbrandur Sverrisson 
Hvað er að – er fólk heimskt? Stundum finnst manni heimska og skilningsleysi keyra úr hófi og þannig var það þegar ég hlustaði á Kastljós Sjónvarpsins í kvöld, 28. febrúar, og þannig hefur það of oft verið áður við hlustun á þann stundum ágæta þátt. Það sem fór fyrir brjóstið á mér var þessi ”skelfilega” uppgötvun fréttastofu Sjónvarpsins og Kastljóss sömu stöðvar á "hræðilegri" dreifingu Fjölskylduhjálpar Íslands á ”útrunnum” matvælum til nauðstaddra og vandlætingartónn bæði Þórhalls og enn frekar Jóhönnu Vilhjálmsdóttir þegar hún var að setja ofan í við formann Fjölskylduhjálparinnar fyrir þennan skelfilega verknað að leyfa nauðstöddu fólki  að hirða að eigin vali matvöru til að seðja hungur barnanna sinna.

Aðalega var um svokallaða þurrvöru að ræða sem komin var á þau mörk að teljast ”útrunnin”. Vara sem telst útrunnin verður það oftast klukkan tólf á miðnætti. Þangað til er hún í fullu gildi og heilnæm, eftir tólf er hún stórhættuleg, jafnvel banvæn, það er einkennilegt hvað sumir hlutir virðast gerast hratt. Ef ég hef skilið vandlætingarsvip Jóhönnu rétt ætti formaðurinn að skammast sín ærlega fyrir að hafa slíka vöru á glámbekk eftirlitslaust, þannig að fátækt fólk geti gefið börnum sínum ”útrunnið” kornflex frekar en að þurfa að segja við þau: "Því miður á ég ekkert til að gefa ykkur að borða í dag, kannski fæ ég eitthvað til að gefa ykkur á morgun."

Það er nefnilega þannig að á þessu ríka Íslandi þar sem ekki þykir neitt óeðlilegt að bankastjórablók kaupi hluti í bankanum sem hann stjórnar á ákveðnu gengi og selji bankanum hlutinn aftur á margföldu gengi og græði 380 milljónir á viðskiptum dagsins. Þetta heitir bara kaupréttarsamningur og þykir bæði sjálfsagt og eðlilegt svo vesalingurinn leiðist ekki út á þá refilstigu að draga sér fé til að geta séð sér fyrir nauðþurftum. Á þessu sama Íslandi er önnur þjóð sem á hvorki pening fyrir mat, fötum né húsaskjóli fyrir sig og börnin sín. Á þessu sama Íslandi eru líka nokkrar konur að reyna að hjálpa þessu sama fátæka fólki, meðal annars með matargjöfum. Þeim er þröngur stakkur skorinn við kaup á matvörum, sá stakkur afmarkast af frjálsum framlögum velhugsandi fólks, en einnig af matargjöfum verslana og fyrirtækja. Það ætti að vera öllum ljóst af umræðum undanfarandi ára að þrátt fyrir þau framlög öll, duga þau skammt  til að mæta ört vaxandi þörf.

Það er meira en lítið að, þegar velmegunarfólk á ríkisfjölmiðli kemur askvaðandi í vandlætingu sinni og dregur hvern sótraftinn á eftir öðrum eins og hræddan héra fram til að lýsa vanþóknum sinni á athæfi kvennanna sem eru að reyna að lina þjáningar nauðstadds fólks. Og lýsa jafnframt yfir að koma verði lögum yfir fyrirtæki sem stunda þvílíka iðju að gefa til hjálparstarfs matvöru sem farin er að nálgast þennan hræðilega stimpil að kallast útrunnin. Það fór ekki fram hjá neinum að fjölmiðla fólkið taldi sig hafa fundið glæpinn, glæpurinn lá ekki hjá bankastjóranum sem hirti 380 milljónir af fyrirtækinu sem hann stjórnar, án blygðunar, nei hann var hjá konunum sem leyfðu þurfandi fólki að hirða mat sem annars hefði verið hent. Glæpurinn var samur þó þær ættu ekki önnur ráð til hjálpar fólki sem býr við sára neyð, fyrir hungraðan er óskemmdur matur líkn þrátt fyrir einhvern stimpil.

Hafi þeir skömm fyrir sem tóku neyðarhjálp frá bjargarlitlu fólki. Var ekki neyð þess nóg, þó bjargráðunum væri ekki fækkað.

Guðbrandur Sverrisson, Bassastöðum