Hörmungardagar á Hólmavík í febrúar

580-ovedurnov3

Eins og alþjóð er kunnugt er bæjarhátíðin Hamingjudagar haldin á hverju ári á Hólmavík, en nú í vetur verða svokallaðir Hörmungardagar haldnir þar í fyrsta skipti dagana 14.-16. febrúar næstkomandi. Um er að ræða nýja menningarhátíð þar sem hugmyndin er að gefa listum, tilfinningum og tjáningu sem sjaldnast fær rými tækifæri til að líta dagsins ljós. Tilveran er fjölbreytileg og margslungin og listsköpunin sömuleiðis; tónlist getur verið drungaleg, upplifun getur verið yfirþyrmandi og tilfinningar geta verið það sem við köllum neikvæðar, jafnvel þótt þær séu ekki alslæmar. Þarna gefst tækifæri til að njóta, miðla og taka þátt í viðburðum og listum sem sjaldan fá næga athygli, svo sem erfiðum upplifunum, svokölluðum neikvæðum tilfinningum og alls konar niðurdrepandi skemmtun, allt eftir hugarfóstri hvers og eins.

Á dagskránni má búast við viðburðum á borð við Braggablús, hörmungar barsvari, morðgátukvöldverð, kvörtunarþjónustu, tækifærum til að fá útrás, öskuræfingum, hörmungargöngu, harmleik, tónleikum, fræðslu um hörmulega atburði á Ströndum og svo framvegis.

Dagskráin er enn í mótun verður auglýst þegar nær dregur. Stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar innan bæjar sem utan eru hvattar til að senda tillögur að atburðum á netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is sem allra fyrst og tryggja sér sess í þessari nýstárlegu hátíð og skemmtilegu tilraun til að lífga upp á skammdegið. Þátttakendur eru hvattir til að fara frjálslega með þema hátíðarinnar og gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn.

Frá þessu segir á vef Strandabyggðar – www.strandabyggd.is.