Hörður Torfa heimsækir Strandamenn

Tæplega hefur nokkur íslenskur listamaður verið eins iðinn við að ferðast um landi með söngva sína og sögur og Hörður Torfason. Hann hóf reglubundnar ferðir um landið upp úr 1970 og er enn að. Með sögum sínum, söngvum og leiklistarstarfi hefur Hörður verið óþreytandi að takast á við samtíð sína og berjast fyrir betri tilveru fyrir alla með því að benda á nauðsyn fjölbreytileikans, samstöðunnar og samræðunnar. Hörður hefur oft heimsótt Strandir og nú kemur hann og verður með tónleika föstudagskvöldið 23. september og hefjast þeir klukkan 20.00 á Café Riis.

Hörður hefur starfað sjálfstætt síðan 1973 en það þýðir að hann hefur engan og notar engan bakhjarl og treystir alfarið á sjálfan sig og gefur út allt sitt efni sjálfur. Hörður hefur sent frá sér m.a. ljóðabækur, leikrit og  geisladiska með eigin efni og nú í haust kom út diskur sem hann kallar Vatnssaga en sá diskur er sá 23 í röðinni svo söngvar hans skipta orðið hundruðum.