Helstu verkefni lögreglu í upphafi árs

Í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum um helstu verkefni fyrstu viku ársins, 1. til 7 janúar 2008, kemur fram að sex ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur og sá sem hraðast ók var stöðvaður á Steingrímsfjarðarheiði á 109 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km. Þá voru tveir ökumenn voru handteknir á Ísafirði  grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Annar var stöðvaður rétt fyrir miðnætti á fimmtudag en hinn um miðjan föstudag. 

Tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt í vikunni. Annað var minniháttar, en á sunnudaginn valt bifreið út af veginum um Mikladal milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar. Ökumaður var einn í bifreiðinni og var hann fluttur á sjúkrahús til skoðunar en reyndist ekki alvarlega slasaður. Mikill krapi var á veginum og er talið að ökumaður hafi misst stjórn á bifreiðinni af þeim sökum.

Haldið var áfram átaki um eftirlit með skoðun ökutækja. Lögreglumenn á Hólmavík gáfu eigendum 17 bifreiða sjö daga frest til að færa bifreiðar sínar til skoðunar. Ef slíkri boðun er ekki sinnt eru skráningarnúmer bifreiðanna fjarlægð.

Á laugardeginum tapaðist rauður verkfærakassi og loftpressa á leiðinni frá Brú í Hrútafirði til Hólmavíkur. Eigandi þessara muna var á ferð vestur á pallbifreið og varð fyrir því að hleri opnaðist og verkfærin féllu af. Hafi einhver upplýsingar um hvar þessir munir eru niðurkomnir eru þeir beðnir um að láta lögregluna á Hólmavík vita í síma 450-3722.