Háskólasetur Vestfjarða og Fræðslumiðstöðin gera samkomulag um þjónustu

640-blida2
Þau tímamót urðu á dögunum að samstarf Háskólaseturs Vestfjarða og Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða vegna fjarnema á háskólastigi var fest í sessi með formlegu samkomulagi. Háskólasetri Vestfjarða er ætlað að þjónusta fjarnema á háskólastigi á öllum Vestfjörðum og hefur nú aðgang að starfsmönnum Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða á Ströndum og sunnanverðum Vestfjörðum. Samkomulagið er þríþætt og felur í sér að Fræðslumiðstöðin veitir háskólanemum á Ströndum og sunnanverðum Vestfjörðum almenna aðstoð og þjónustu varðandi próf, fjarfundi og upplýsingagjöf.

Kennslustjóri Háskólaseturs mun bera ábyrgð á að koma próftöflum og upplýsingum um próf til Fræðslumiðstöðvarinnar, sem eftir það tekur ábyrgð á prófunum, fyrirlögn, yfirsetu og póstlagningu. Þá segir í samkomulaginu að nemendur sem þurfa á fjarfundabúnaði að halda til að sækja háskólakennslu eigi að geta nýtt fjarfundabúnað Fræðslumiðstöðvarinnar á áðurnefndum svæðum. Loks er kveðið á um að starfsmenn Fræðslumiðstöðvarinnar geti veitt grunnupplýsingar um að stýra tæknibúnaði vegna fjarnáms.