Harmonikkutónar á sólardegi

Sumarið hefur heldur betur minnt á sig síðustu daga á Ströndum en hitinn hefur farið allt í 20 stig. Dagurinn í dag er ekkert undanskilinn og ætti að blása bjartsýni og gleði í menn og dýr. Ásdís Jónsdóttir á Hólmavík er þekkt fyrir dæmalausa bjartsýni alla daga ársins og hvernig sem viðrar. Hún setti sig út á tröppur í gleði sinni í morgun og þandi harmonikkuna nágrönnum sínum til mikillar ánægju. Ásdís var heiðruð sérstaklega af Leikfélagi Hólmavíkur í gærkvöldi og hlaut þar nafnbótina, Móðir okkar allra, fyrir óeigingjörn störf í menningarmálum og ekki síst fyrir það eitt að vera til og vera öllum öðrum hvatning til gleði og bjartsýni í hversdagsleikanum.