Haftyrðlar finnast víða á Ströndum

Síðustu daga hafa fundist hraktir haftyrðlar víða á Ströndum, m.a. í Kollafirði, Steingrímsfirði og Bjarnarfirði. Þeir eru ekki lengur varpfuglar við Ísland, en verptu í Grímsey (ekki þeirri á Steingrímsfirði) fram undir aldamótin síðustu. Með hlýnandi veðurfari virðast þeir hafa fært varpstöðvar sínar norðar.

Haftyrðlar koma í töluverðum mæli til Íslands norðan út höfum á veturna. Þeir eru algengastir fyrir norðan og austan, en sjást þó einnig vestanlands og sunnan. Algengt er að þeir hrekist í stórum hópum um hafið í vetrarstórviðrum og margir farist, enda léttir og viðkvæmir. Berast þeir stundum upp á land hér og finnast á ótrúlegustu stöðum. Margir haftyrðlar fundust á Ströndum um jólin 2007, en þá eftir norðaustanáttir, en ekki suðvestan vinda eins og þá sem hafa blásið síðustu daga.

Haftyrðill er samanrekinn og kubbslegur í útliti, 17-25 cm að lengd, tæp 140 g að þyngd að meðaltali og með 30-48 cm vænghaf. Haftyrðill þótti hálfgerður furðufugl er hann fannst fyrr á öldum, rekinn á land í stórum hópum, norðan úr Íshafi. Ímynduðu menn sér að þetta væri undrafuglinn halkíon sem samkvæmt þjóðsögum er sagður verpa úti á rúmsjó.

Varpheimkynni haftyrðils eru í fuglabjörgum við Íshafið, norðan Atlantshafs og Barentshafs, m.a. á Grænlandi, Svalbarða, Bjarnarey, Frans Jósefslandi, Nóvaja Semlja og ótal smáeyjum. Þarna er hann í milljónavís.