Guitar Islancio með tónleika 8. október

Tríóið Guitar Islancio mun heimsækja Strandamenn og halda tónleika á Café Riis á Hólmavík miðvikudaginn 8. október kl. 20:30. Einnig mun tríóið leika fyrir börnin í Grunnskólanum á Hólmavík kl.11.00  á fimmtudagsmorgun og auk barnanna frá Hólmavík, koma nemendur frá Drangsnesi og Finnbogastöðum á staðinn. Tróið Guitar Islancio skipa Gunnar Þórðarson og Björn Thoroddsen sem leika á gítar og Jón Rafnsson sem spilar á kontrabassa. Á tónleikunum leika þeir íslensk þjóðlög auk laga eftir Gunnar Þórðarson, Björn Thoroddsen o.fl., en aðgangseyrir er kr. 1.500.- 

Tríóið var stofnað haustið 1998 af gítarleikurunum Birni Thoroddsen og Gunnari Þórðarsyni og Jóni Rafnssyni kontrabassaleikara og hefur síðan þá, haldið fjölda tónleika og komið fram á tónlistarhátíðum bæði hér á Íslandi og erlendis; í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Þýskalandi, Lettlandi, Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada, Japan, Kína og á Spáni.

Guitar Islancio hefur gefið út fimm geisladiska, þar af fjóra sem innihalda íslensk þjóðlög í léttdjössuðum útsetningum. Á diskinum Scandinavian Songs leika þeir þjóðlög frá öllum Norðurlöndunum, Færeyjum og Grænlandi, en sá diskur var gefinn út í Japan haustið 2006. Þessir diskar hafa allir fengið mjög góðar viðtökur og seldist fyrsti diskur þeirra, "Guitar Islancio" (1999) í gullsölu, sem eru 5000 (eða fleiri) seld eintök, en sá diskur ásamt  "Guitar Islancio III" (2001)  voru á sínum tíma tilnefndir til íslensku tónlistarverðlaunanna sem jazzdiskar ársins.

Árin 2000 og 2001 voru Guitar Islancio útnefndir "Tónlistarhópur Reykjavíkur". Á þeim tíma sem Guitar Islancio hefur starfað hafa fjölmargir þekktir tónlistarmenn leikið með tríóinu, m.a franski fiðluleikarinn Didier Lockwood, danski klarinettuleikarinn Jörgen Svare, franski gítarleikarinn Sylvain Luc, danski fiðluleikarinn Kristian Jörgensen og kanadíski (vestur-íslenski) trompetleikarinn Richard Gillis, en hann leikur einnig með þeim á geisladiskinum Icelandic Folk.

Björn Thoroddsen hefur sl. 25 ár verið einn af atkvæðamestu djasstónlistarmönnum Íslands. Hann hefur gefið út fjölda diska undir eigin nafni auk fjölda samstarfsverkefna t.d Svare/Thoroddsen Trio, Cold Front, Björn Thor/ Egill Ólafsson tríó, Kvartett Guðmundar Ingólfssonar,  Gömmum og  Ríó ásamt því að hafa leikið með fjölda þekktra evrópskra tónlistarmanna bæði á diskum og á tónleikum m.a  Niels-Henning Örsted Pedersen, Nigel Kennedy, Alex Riel, Philip Catherine, Silvain Luc, Didier Lockwood, Doug Raney og  Jörgen Svare. Björn hefur á síðastliðnum árum verið tíður gestur í Norður Ameríku og hefur m.a. gefið  út 3 diska í Kanada. Björn hefur leikið með ýmsum þekktum tónlistarmönnum í Bandaríkjunum og Kanada og má þar  nefna  Leni Stern, Steve Kirby, P.J. Perry, James Carter, Prudence Johnson, Ben Perowsky, Daniel Freedman o.fl. Björn hefur hlotið ýmsar viðurkenningar eins og t.d. Jazztónlistamaður ársins 2003 á Íslensku Tónlistarverðlaununum, Bæjarlistamaður Garðabæjar  2002 og Jazztónskáld ársins 2005 á ÍTV.

Jón Rafnsson hefur, allt frá því hann flutti heim frá Svíþjóð árið 1990, verið mjög virkur í íslensku tónlistarlífi og leikið jafnt jazz, klassík, með danshljómsveitum, í leikhúsum – bæði sem tónlistarstjóri og hljóðfæraleikari, auk þess að leika inná fjölda geisladiska. Hann lauk  kennaraprófi frá Tónlistarkennaraháskólanum í Stokkhólmi árið 1987 (Stockholms Musikpedagogiska Institut – SMI) og stundaði nám í kontrabassaleik árin 1983 – 1986 og 1988- 1990 hjá Thorvald Fredin, prófessor við Tónlistarháskólann í  Stokkhólmi. Auk hljóðfæraleiks starfar Jón einnig sem bassakennari við tónlistarskólann í Hafnarfirði.

Gunnar Þórðarson hefur verið í fremstu röð íslenskara tónlistarmanna allt frá því hann stofnaði popphljómsveitina Hljóma í byrjun 6.áratugarins. Hann hefur samið yfir 500 lög, sem hafa verið gefin út á hljómplötum, og auk þess tónlist við fjölmargar kvikmyndir, söngleiki og leikverk. Einnig hefur hann stjórnað upptökum og útsett tónlist á fjölda hljómplatna. Á síðustu árum hefur hann snúið sér æ meir að tónsmíðum og útsetningum stærri verka s.s. fyrir sjónvarp, kvikmyndir, leikhús, kóra og sinfoníuhljómsveitir.  Hann var sæmdur hinni íslensku fálkaorðu í janúar 2003.