Guðjón Þórólfsson er íþróttamaður ársins í Strandabyggð

Þann 28. des sl. var Guðjón Þórólfsson útnefndur íþróttamaður ársins í Strandabyggð. Það eru Íþróttafélag lögreglumanna á Hólmavík og sveitarfélagið Strandabyggð sem veita viðurkenninguna, en Hannes Leifsson varðstjóri afhenti Guðjóni veglegan farandbikar og gjöf við hátíðlega athöfn á lögreglustöðinni. Guðjón, sem varð 15 ára nú í ársbyrjun, stóð sig einstaklega vel á árinu 2007 og vann m.a. hástökkskeppni Meistaramóts Íslands 12-14 ára með því að stökkva yfir 1,75 metra. Guðjón hefur auk þess staðið framarlega í öllum þeim íþróttagreinum sem hann hefur tekið þátt í auk hástökksins. Hann var einnig útnefndur Íþróttamaður ársins hjá HSS árið 2007.

Í stuttri ræðu sem Hannes Leifsson hélt við afhendinguna kom fram tilgangur verðlaunanna er m.a. að hvetja afreksfólk á svæðinu til dáða. Hann nefndi einnig að Guðjón væri sérstaklega vel að titlinum kominn og hefði sýnt á árinu að hann geti hæglega skipað sér í hóp besta frjálsíþróttafólks landsins á komandi árum.

Þá veitti Íþróttafélag lögreglunnar á Hólmavík Guðmundi Björnssyni á Hólmavík sérstaka viðurkenningu og gjöf vegna baráttu hans fyrir bættri umferðramenningu og vegabótum á Ströndum í gegnum tíðina. Fram kom í máli Gunnars S. Jónssonar að fáir hefðu barist jafn einarðlega fyrir vegabótum á Ströndum eins og Guðmundur, hvort sem verið væri að ræða um veginn yfir Steingrímsfjarðarheiði eða yfir Arnkötludal.

J

Guðjón ásamt bikarnum veglega.

Guðmundur Björnsson tekur við viðurkenningu frá Íþróttafélaginu.

frettamyndir/2007/580-itrottamadur2007c.jpg

Hannes Leifsson hvetur Guðjón til dáða.

Ljósm. Arnar S. Jónsson