Greiðfært um Strandir

Allir vegir á Ströndum eru nú greiðfærir samkvæmt vef Vegagerðarinnar, bæði vegurinn norður í Árneshrepp og um Steingrímsfjarðarheiði. Einungis sumarvegirnir um Steinadalsheiði, Tröllatunguheiði og Þorskafjarðarheiði eru merktir ófærir. Veturinn hefur hingað til bara sýnt sig í smáskömmtum á Ströndum, en snjó tekið að mestu upp á milli. Veðurspáin næsta sólarhring gerir ráð fyrir hægri suðvestanátt og dálítilli rigningu fram eftir degi, en styttir síðan upp. Hiti verður á bilinu 1 til 5 stig. Norðaustan 5-8 m/s og víða bjart á morgun og hiti nálægt frostmarki.