Götu- og útivistarkort fyrir Hólmavík komið út

Út er komið götu- og útivistarkort af Hólmavík
ásamt upplýsingum um þjónustufyrirtæki í Strandabyggð. Það er Arnkatla 2008
og Menningarmálanefnd Strandabyggðar sem gefa kortið út í samstarfi
við Upplýsingamiðstöð ferðamála á Hólmavík. Kortið er í teiknað í þrívídd og öll
helstu kennileiti og hús eru teiknuð sérstaklega inn á það, meðal annars
gönguleiðarnar um Kálfanesborgir og Óshringurinn svo eitthvað sé nefnt. Ómar
Smári Kristinsson myndlistarmaður var fenginn til að teikna kortið og yfirumsjón
með vinnunni hafði Sigurður Atlason, verkefnisstjóri Arnkötlu 2008.

Að sögn Sigurðar þá hefur verið skortur á svona
götukorti fyrir Hólmavík í áraraðir. Það auðveldar alla upplýsingagjöf verulega
og ýtir undir að gestir og gangandi nýti þá þjónustu sem er að finna í og við
kauptúnið. Hann segir kortið auðvelda upplýsingagjöf á upplýsingamiðstöðinni
verulega. Nú sé hægt að útskýra upphaf og endir gönguleiða í nágrenni Hólmavíkur
nákvæmlega án þess að nokkur þurfi að velkjast í vafa um í hvaða átt skuli halda
og hvort einhver endir sé á leiðinni.

Einnig er að finna hverskyns táknmyndir á kortinu
sem tengja við sögu, þjóðtrú, minnismerki og afþreyingu á staðnum. Öll helstu þjónustufyrirtæki eru merkt sérstaklega inn á
kortið og auk þess er þjónustulista á íslensku og ensku að finna á bakhlið þess.

Götu- og útivistarkort Hólmavíkur er hægt að
nálgast endurgjaldslaust á Upplýsingamiðstöð ferðamála á Hólmavík og Sigurður
segir að það ætti að vera til á hverju heimili í sveitarfélaginu og sé út af
fyrir sig góð mynd upp á vegg.

Ferðamálaráð og Pokasjóður styrktu gerð
kortsins.

Götu- og útivistarkortið fyrir Hólmavík og nágrenni