Góður árangur í Hveravík

Jarðborinn Jökull - ljósm. Haukur JóhannessonGóður árangur hefur náðst við borun eftir heitu vatni fyrir Hveraorku ehf í Hveravík við Steingrímsfjörð. Þetta kemur fram á vefnum www.isor.is. Í fjörunni austan víkurinnar eru hverir og hæstur hiti hefur mælst 76°C, en sjór fellur yfir hverina. Á fyrri hluta síðustu aldar var steypt sundlaug þarna í fjöruborðinu. Við leit að heitu vatni var nú skáboruð hola og var ætlunin að skera jarðhitasprunguna ekki dýpra en í um 270-300 metrum. Fyrst var borað með lofti, en í liðlega 250 metrum komu í holuna um 2 l/sek af um 80°C heitu vatni og eftir það var borað með hjólakrónu. Holan er nú 312,5 metra djúp og við loftdælingu koma upp um 40 l/sek af a.m.k. 73°C heitu vatni, en hún á eftir að hita sig upp.

Árni Kópsson borar holuna með jarðbor sem nefnist Jökull, en verkefnisstjóri af hálfu ÍSOR var Haukur Jóhannesson. Verkið var styrkt af Orkusjóði.