Furðuleikar í Sævangi í dag

Einn af hápunktur Hamingjudaga á Hólmavík hefur jafnan verið svokallaðir Furðuleikar Sauðfjársetursins í Sævangi. Þeir eru jafnan haldnir eftir hádegi á sunnudegi um Hamingjuhelgina og svo er einnig í dag. Á Furðuleikunum er lögð áhersla á að fjölskyldan leiki sér saman og keppt er í margvíslegum skrítnum og skemmtilegum greinum sem bæði er gaman að horfa á og taka þátt í, svo sem girðingastaurakasti, farsímahittni og trjónufótbolta. Öskurkeppni er líka vinsæl grein á Furðuleikunum og kvennahlaupið er bráðskemmtilegt, en þar hlaupa karlar um stutta þrautabraut með konu á bakinu. Til að kóróna daginn er síðan stórglæsilegt kaffihlaðborð á Kaffi kind í Sævangi. Furðuleikarnir og kaffihlaðborðið hefjast kl. 13:00 og standa til kl. 16:00.

Á dagskrá Hamingjudaga í dag eru einnig léttmessa og golfmót og listsýningar eru einnig opnar á Hólmavík í dag. Strandamenn og gestir þeirra eru hvattir til að njóta lífsins og veðurblíðunnar í botn.