Furðuleikar á sunnudaginn

Á lokadegi Hamingjudaga, sunnudaginn 29. júní, heldur Sauðfjársetur á Ströndum sína fimmtu Furðuleika. Á leikunum er keppt í ýmsum skringilegum íþróttagreinum sem eiga það sameiginlegt að vera afbragðs skemmtun og hafa ekki hafa hlotið viðurkenningu Alþjóða Ólympíunefndarinnar. Meðal þess sem karlar, konur, börn og gamalmenni geta prófað í ár eru Öskur, Belgjahopp og Hrafnaspark. Blöðrugerðarfólk verður á svæðinu, andlitsmálun verður í boði fyrir yngri kynslóðina og á kaffistofu Sauðfjársetursins verður dásemdar kaffihlaðborð á boðstólum. Þá mætir hin stórfurðulega hljómsveit Veðurguðirnir á svæðið og Bahamast með börnunum, auk þess sem grunnskólakennarar og nemendur frá Reykhólum mæta á svæðið og afhjúpa sérstæða sýningu á eyrnamörkum.

Sögusýningin Sauðfé í sögu þjóðar verður opin að vanda. Aðgangur á Furðuleikana er ókeypis fyrir alla og alls engar kröfur eru gerðar til keppenda um færni, þol eða fyrri reynslu í íþróttum. Að sögn Arnars S. Jónssonar, framkvæmdastjóra Sauöðfjársetursins, ríkir einna mest spenna um hvort raunhæft sé að gera atlögu að heimsmetinu í girðingastaura­kasti, en nýtt heimsmet hefur verið sett á hverju ári sem keppnin hefur farið fram. Núgildandi met, 19,90 metrar, er í eigu Gunnars Þórs Garðarssonar, fyrrum vinnumanns á Felli í Kollafirði. Þess má til gamans geta að heimsmet alþingismanna er 18,10 metrar en þeim árangri náði Kristinn H. Gunnarsson á þriðju leikunum.

Dagskrá Furðuleikanna lýkur síðan með skítkasti á lifandi skotmark, en mikil leynd hvílir yfir því hvert skotmarkið verður í ár.