Fróðleiksfýsn Strandamanna – handrit og bækur

handrit2

Ný sýning verður opnuð á Galdrasafninu á Hólmavík á sunnudaginn kemur, þann 18. maí kl. 14:00. Þar verða sýndar bækur og handrit sem varðveist hafa á Sandnesi og einnig ljósmyndir og umfjöllun um handrit af svæðinu sem varðveitt eru á Landsbókasafninu. Í handritunum er ýmislegt skemmtiefni frá því fyrir aldamótin 1900, rímur, sögur og trúarlegt efni. Þá má einnig sjá trúarlegar bækur þar sem sú elsta er 332 ára gömul og hefur verið mikið lesin. Þarna er samankominn mikill fróðleikur um hvernig fólk fræddist og skemmti sér fyrir tíma útvarps, kvikmynda og sjónvarps. Allir eru hjartanlega velkomnir, en Magnús Rafnsson formaður stjórnar Strandagaldurs mun segja frá handritunum og sýningunni á opnuninni.

Á meðfylgjandi mynd gefur að líta eitt titilblað í handriti Sighvatar Grímssonar Borgfirðings sem bjó um tíma á Klúku í Bjarnarfirði.