Fræðafélag stofnað á Ströndum milli jóla og nýárs

ATH: FUNDI FRESTAÐ FRAM YFIR ÁRAMÓT VEGNA VEÐURSPÁR. Fyrirhugað er að stofna fræða- og fróðleiksfélag á Ströndum á milli jóla og nýárs. Félagið verður þverfaglegt og opið bæði háskólamenntuðu fólki og áhugamönnum um margvísleg fræði, vísindi, menningu og listir. Allir eru þannig velkomnir í félagið. Á Ströndum er grundvöllur fyrir dálítið rannsóknasamfélag, en þar eru meðal annars búsettir einstaklingar með menntun í þjóðfræði, sagnfræði, safnafræði, mannfræði og náttúruvísindum. Eins eru rekin þar söfn, sýningar og fræðasetur.

Markmið félagsins verður að auka samvinnu og efla tengslanet fræði- og vísindamanna á Ströndum, auk þess að vinna að kynningu þeirra rannsóknarverkefni sem unnin eru í héraðinu fyrir íbúum og umheiminum öllum.

Stofnfundurinn verður haldinn, ef veður leyfir, miðvikudaginn 28. desember kl. 20:00 í Sauðfjársetrinu í Sævangi. Allir eru velkomnir.

Það er Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa sem boðar til fundarins.