Frábær árangur á Andrésar andarleikunum

Tíu krakkar af Ströndum tóku þátt í keppni í skíðagöngu á Andrésar-andarleikunum var haldnir voru á Akureyri í vikunni og stóðu sig öll frábærlega vel. Strandamönnum hefur aldrei gengið betur á mótinu og komu heim með 4 gullverðlaun, 3 silfur og 3 brons. Harpa Óskardóttir sigraði bæði í göngu með hefðbundinni og frjálsri aðferð og Inga Matthildur Karlsdóttir sigraði í göngu með frjálsri aðferð. Friðrik Heiðar Vignisson sigraði einnig í göngu með frjálsri aðferð og varð annar í göngu með hefðbundinni aðferð. Númi Leó Rósmundsson og Stefán Snær Ragnarsson urðu báðir í öðru sæti í göngu með hefðbundinni aðferð og þriðju í göngu með frjálsri aðferð. Þá varð Hilmar Tryggvi Kristjánsson í 3.-4. sæti í göngu með frjálsri aðferð.

Á vef Skíðafélags Strandamanna kemur fram að þetta sé langbesta frammistaða Strandamanna á Andrésar-andarleikunum í verðlaunum talið, frá því félagið hóf að taka þátt í leikunum. Samtals hefur félagið nú átt sigurvegara í göngu á leikunum níu sinnum. Akureyringar fá bestu þakkir fyrir leikana sem voru glæsilegir og framkvæmdin til fyrirmyndar eins og alltaf.