Ferðaþjónustan komin á fullan skrið

Ferðaþjónustan á Ströndum er komin á fullan skrið og vertíðin hafin eða að hefjast hjá flestum þeim sem standa fyrir afþreyingu og þjónustu sem er eingöngu í boði á sumrin. Hvalaskoðunarbáturinn Láki er kominn á Strandir og siglingar hefjast frá Hólmavík á morgun og sömuleiðis er miðað við 15. júní með siglingar með Sundhana í Grímsey þar sem lundarnir eru helsta aðdráttaraflið. Ferðir í Grímsey eru farnar frá Drangsnesi. Victor Örn Victorsson er líka byrjaður að huga að sumrinu með Strandahesta, en þar er boðið upp á hestaferðir frá Víðidalsá.

Sundlaugar eru opnar á Hólmavík, Drangsnesi, Laugarhóli í Bjarnarfirði og í Krossnesi í Árneshreppi og sömuleiðis söfn og sýningar: Sauðfjársetrið í Sævangi, Galdrasýningin á Hólmavík, Steinshús á Nauteyri við Djúp, Minjasafnið Kört í Trékyllisvík og Sögusýning Djúpavíkur.

Náttúrubarnaskólinn í Sævangi stendur fyrir námskeiðum og útivist og fjölmargir aðrir viðburðir eru á dagskránni í sumar, m.a. Náttúrubarnahátíð 28.-30. júlí. Bryggjuhátíð á Drangsnesi hefur verið endurvakin og verður 22. júlí í sumar og Hamingjudagar á Hólmavík verða 30. júní – 2. júlí. Handverkssala er hjá Strandakúnst á Hólmavík og í Kört í Trékyllisvík.

Það er því heldur betur nóg að gera fyrir ferðafólk sem staldrar við á Ströndum í sumar.