Ferðakynning á Ströndum

Fréttatilkynning
Ferðaskrifstofan Þemaferðir býður til ferðakynningar fimmtudaginn 11. apríl á Galdrasýningunni Hólmavík klukkan 17:30 og á Malarkaffi Drangsnesi klukkan 20:00. Sérstaklega verða kynntar tvær ferðir sem eru framundan, Í kjölfar víkinganna sem er 10 daga ferð til Orkneyja og Gengið á milli byggða, 5 daga gönguferð á Ströndum. Auk þess verður starfsemi Þemaferða kynnt og sýndar myndir úr fyrri ferðum.

Þetta er í fyrsta skipti sem ferðaskrifstofa starfar á Ströndum. Þemaferðir hafa starfað sem ferðaskipuleggjandi frá ársbyrjun 2009 en nú hefur skrefið verið stigið til fulls svo hægt sé að bjóða upp á fjölbreyttara úrval af ferðum og fleiri áfangastaði. Þemaferðum var í upphafi ætlað að veita ráðgjöf og skipuleggja ferðir fyrir þá sem hyggja á ferðalög til kjörsvæðanna á Íslandi, Strandir og Snæfellsness en býður nú sérstaklega upp á almennar ferðir til útlanda. Hingað til hafa slíkar ferðir eingöngu verið skipulagðar fyrir hópa samkvæmt óskum og það munum við gera áfram. Við höfum mikla ánægju af að vinna að því að skipuleggja ferðir fyrir mismunandi hópa og gerum okkar ítrasta til að verða við öllum óskum um upplifun og fyrirkomulag til að gera ferðirnar sem ánægjulegastar.

Grundvöllurinn er þekking og skilningur okkar á náttúru, menningu og íbúum. Skotlandsferðir okkar hafa því þótt sérstök upplifun, enda höfum við ferðast mikið um Skotland og setjum saman ferðir út frá eigin reynslu. Ferðast er utan fjölsóttra ferðamannastaða (skoski rútubílstjórinn okkar hefur starfað í 30 ár og er sífellt að kynnast nýjum stöðum í landi sínu) og dvalið hjá völdum ferðaþjónum. Við leitum oft til staðkunnugra leiðsögumanna og sagnaþula. Þá er verulega skemmtilegt að dvelja í litlu þorpunum til dæmis þegar heimamenn taka upp fiðluna og syngja fyrir okkur söguljóð.

Eigendur ferðaskrifstofunnar eru Arnlín Óladóttir og Magnús Rafnsson á Bakka í Bjarnarfirði og Óli Jón Ólason og Steinunn Hansdóttir í Grundarfirði. Öll hafa þau mikla reynslu í ferðamálum. Þemaferðir starfa á þessum tveimur stöðum, en mest eru þó samskipti við viðskiptavini í gegnum netið.

Verið velkomin á vefsíðu Þemaferða: www.Þemaferðir.is.