Félag eldri borgara heimsótti Grunnskólann á Hólmavík


Árið 2012 er tileinkað öldruðum í Evrópu og er markmið átaksins að auka virkni og færni aldraðra, bæta menntun og brúa kynslóðabilið. Fyrr í október komu félagar í Félagi eldri borgara á Ströndum í Grunnskólann á Hólmavík í heimsókn til nemenda og kennara í 5.-7. bekk. Formaður félagsins, Maríus Kárason, kynnti félagið og starfsemi þess. Nemendur voru búnir að undirbúa sig og semja spurningar sem þeir leituðu svara við og komust m.a. að því að eldri borgarar á Ströndum sitja ekki auðum höndum, heldur eru dugleg að hittast, spila og föndra, iðka boccia, smíði, lesa fyrir vistmenn sjúkrahússins og fara saman í gönguferðir og ferðalög. Frá þessu er sagt á vef skólans – www.strandabyggd.is/grunnskolinn.