Engin ákvörðun komin um snjómokstur í Árneshrepp

Ljósm. Jón G.G.Yfir 1500 manns hafa lýst yfir stuðningi við snjómokstur í Árneshrepp yfir vetrartímann á samskiptasíðunni Facebook og fjölgar óðum í hópnum. Í frétt á litlihjalli.it.is kemur fram að fjölmiðlar hafa sýnt málinu vaxandi áhuga á síðustu dögum. Eins og staðan er nú, mun snjómokstur einfaldlega leggjast af eftir 1. nóvember og Árneshreppur yrði þá eina sveitarfélagið á Íslandi án þeirrar þjónustu. Íbúar yrðu alfarið að reiða sig á flugsamgöngur við Gjögur, en ljóst að ýmiskonar þjónusta legðist af, m.a. læknisheimsóknir og sorphirða. Þá yrði loku skotið fyrir hverskonar ferðaþjónustu og íbúar í Djúpavík í raun lokaðir inni, bæði til norðurs og suðurs.

Mikill stuðningur hefur komið fram við málstað Árneshrepps og ljóst að margir láta sér umhugað um velferð fámennasta sveitarfélags landsins. Það er um að gera fyrir vini og velunnara Árneshrepps að skrá sig á stuðningssíðuna á Facebook.