„Brýnt að ráðast í byggingu Hvalárvirkjunar“

ÓfeigsfjörðurÍ frétt á ruv.is kemur fram að Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfjarða, telur brýnt að ráðist verði í byggingu Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði til að tryggja svæðinu sjálfstæði í orkumálum. Hann segir takmarkaða og ótrygga raforku hamla atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum og tekur þannig undir orð Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra frá því fyrr í ágúst. Komið hefur fram að fyrirtækið Vesturverk áformar að virkja Hvalá og hefur verið unnið að undirbúningi frá áramótum. Samkvæmt frétt ruv.is er talið að fullbyggð geti virkjunin framleitt um 37 megavött af raforku og heildarkostnaður verði um 14 milljarðar.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra hefur lýst yfir stuðningi við framkvæmdina svo fremi sem hún standist mat á umhverfisáhrifum og telur að ríkið ætti að standa fyrir virkjunarframkvæmdum takist einkaaðilum ekki að fjármagna verkefnið.

Í frétt á http://www.bb.is á dögunum segir Kristján Haraldsson Orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða hins vegar um virkjun Hvalár í Ófeigsfirði: „Orkubú Vestfjarða hefur allt frá stofnun fyrirtækisins ýtt á eftir rannsóknum á þessum virkjunarkosti og komið að rannsóknunum nú síðustu ár með Orkustofnun. Orkubúið stóð fyrir skoðunarferð upp með Hvalá árið 2002 og með í ferð voru m.a. þáverandi iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir og Þorkell Helgason orkumálastjóri. Þá hefur Orkubúið óskað þess að Hvalárvirkjun og Glámuvirkjun verði teknar með í rammaáætlun en þeim óskum hefur ekki enn verið sinnt."

Áfram heldur Kristján í viðtali við bb.is: "En af hverju hefur Orkubú Vestfjarða ekki látið til skarar skríða og hafið virkjunarframkvæmdir? Einfaldlega vegna þess að virkjunin er að okkar mati of dýr miðað við aðra virkjunarkosti á Íslandi og er af Orkustofnun metin í II. flokki. (I. flokkur er það sem er hagkvæmast). 1 MW í gufuaflsvirkjun í dag er talið kosta 150-200 Mkr. á sama tíma kostar 1 MW í Hvalárvirkjun 300-350 Mkr. Orkubúi Vestfjarða er því miður ekki kunnugt um neinn orkukaupanda sem er reiðubúinn að greiða nægilega hátt raforkuverð til að standa undir byggingu Hvalárvirkjunar, þar stendur hnífurinn í kúnni.“