Bryggjuhátíð á Drangsnesi

580-bryggjufjor1 Hin árlega Bryggjuhátíð á Drangsnesi verður laugardaginn 21. júlí, en hún var fyrst haldin árið 1996. Dagskrá hátíðarinnar verður með hefðbundnu sniði og hefst með dorgveiðikeppni fyrir yngstu kynslóðina í Kokkálsvík. Báturinn Sundhani verður með ferðir út í Grímsey allan daginn. Sjávarréttarsmakk verður við frystihúsið í hádeginu og er það að mati margra hápunktur hátíðarinnar. Markaðsstemmning verður í tjaldinu og grásleppusýning í húsinu Framtíðin.

Að vanda verður margt um að vera fyrir börnin. Jogvan og Vignir ætla að skemmta krökkum á Malarkaffi, Söngvarakeppni krakka verður á sínum stað fyrir söngelska, hoppukastalar og strandhestum reiðtúrar. Bryggjuhátíðin endar með kvöldskemmtun í samkomuhúsinu Baldri. Að henni lokinni verður hægt að halda fjörinu áfram við varðeld með Ragga Torfa þar sem sungið verður og trallað. Að varðeldinum loknum verður Bryggjuhátíðarballið með Stuðlabandinu.

Frá þessu er sagt á bb.is.