Bryggjuhátíð á Drangsnesi gekk mjög vel

Það var mikið fjölmenni samankomið á Bryggjuhátíð á Drangsnesi síðastliðinn laugardag, í einstöku blíðskaparveðri. Giskað hefur verið á að yfir 1000 manns hafi mætt á hátíðina sem var endurvakin eftir þriggja ára hlé. Bryggjuhátíð var fyrst haldin 1996 og hefur verið með svipuðu sniði alla tíð, enda óþarfi að breyta vel heppnaðri uppskrift, eins og Drangsnesingar segja. Sjávarréttasmakkið er feykivinsælt, bátsferðir eru út í Grímsey, sögusýning um heita vatnið á Drangsnesi, kaffihlaðborð, fótboltaleikur milli Hólmavíkur og Drangsness, Bryggjó got talent hæfileikakeppni, brekkusöngur og ball um kvöldið.

Bryggjuhátíð 2017 – ljósm. Jón Jónsson