Brúin yfir Bjarnarfjarðará boðin út

Vegagerðin hefur nú óskað eftir tilboðum í smíði nýrrar brúar á Bjarnarfjarðará á Strandavegi í Strandasýslu. Nýja brúin verður lítið eitt ofar en núverandi brú á ánni, 50 metra löng steypt eftirspennt bitabrú í tveimur 25 m löngum höfum. Hún verður með 8 metra breiðri akbraut og hálf metra breiðum bríkum. Verkinu skal að fullu lokið eigi síðar en 1. júlí 2018. Útboðsgögnin eru seld hjá Vegagerðinni, á Borgarbraut 66 í Borgarnesi og í Borgartúni 7 í  Reykjavík (móttaka) og er verð þeirra 2.000 kr. Skila skal tilboðum á sömu stöðum fyrir kl. 14:00 þriðjudaginn 12. september.

Meðfylgjandi mynd af gömlu brúnni yfir Bjarnarfjörð er úr kynningarskýrslu framkvæmdarinnar og merkt myndasafni Vegagerðarinnar. Gamla brúin er 34 metra löng steypt bitabrú með timburgólfi og 3,6 metra breiðri akbraut. Burðargeta hennar er miðuð við 400 kg/m2.