Breikkun slitlagsins í Bitrunni fyrirhuguð í vor

Magnús V. Jóhannsson svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Norðvestursvæði segir að Vegagerðin hafi ekki komist af stað með framkvæmdir við breikkun á einbreiðu slitlagi á Djúpvegi í Bitrufirði síðastliðið haust eins og vonir stóðu til. Hins vegar verði farið af stað með framkvæmdirnar næsta vor. Strandamenn eru orðnir mjög óþreyjufullir eftir þessu sjálfsögðu vegabótum og mörgum finnst óþolandi að verkefnum sem fjármagn er til í sé frestað á milli ára, á þessu afskipta svæði sem Strandir eru þegar kemur að vegamálum.

Í samgönguáætlun voru eyrnamerktar 78 milljónir árið 2007 í breikkun slitlags og vega á Djúpvegi, 60 milljónir 2008 og 45 milljónir 2009. Engan snilling þarf til að sjá að einbreiða slitlagið og vegurinn í Bitrufirði hlýtur að vera fremst í forgangsröðinni.

Á Djúpvegi nr. 61 er á nokkrum stöðum ennþá einbreitt malbik. Langverst er það farið í Bitrufirði milli Óspakseyrar og Tunguár, þar sem undirlagið hefur ekki þolað þungaflutninga liðinna ára og yfirborðið er í meira lagi öldótt og hjólför eru á köflum djúp. Vegurinn í Bitrunni utan við Óspakseyri allt að Brekku hefur einnig verið til vandræða og á þeim kafla hafa margar bílveltur orðið. Þar er undirlagið í köntunum of sendið og laust í sér. Þegar þungir bílar eru að mætast á einbreiða slitlaginu þurfa báðir að fara út á kantana og þá hættir kantinum til að skríða undan þunga bílanna og hafa bæði vanir og óvanir lent þar í vandræðum og veltum.

Einnig skapast oft hætta þegar venjulegir bílar mætast í Bitrunni, því ökumönnum sem eru óvanir slíkum vegum hættir til að þora ekki út fyrir slitlagið þegar þeir mæta öðrum farartækjum. Ef viðhald á köntunum er ekki gott getur verið dálítill hæðarmunur á slitlaginu og kantinum og hrökkva menn þá við. Eins þurfa vegfarendur stundum að prísa sig sæla fyrir að hafa sloppið heilir á húfi eftir að hafa mætt á þessum slóðum ökumönnum sem hafa gleymt því stundarkorn að þeir eru með breið fellhýsi eða hjólhýsi í eftirdragi. Á vegi þar sem flutningabíll og mótorhjól geta ekki mæst með góðu móti kann það ekki góðri lukku að stýra.

Einbreitt slitlag er einnig á Djúpvegi á dálitlum kafla í Seyðisfirði vestra og nær rétt yfir í Hestfjörð, en undirlagið ber sig miklu betur þar, en í Bitrufirðinum. Þá var einbreitt slitlag í Álftafirði innan við Súðavík, en var breikkað og lagfært síðastliðið haust, eins og gert var í Hrútafirði á árunum 2005-2006. Var fyrir margt löngu kominn tími til á báðum stöðum og hið sama gildir svo sannarlega um Bitruna.