Afmælisbíltúr Ameríkana í hálku

Eins og komið hefur fram hér á strandir.is þá hafa vegir í Strandasýslu sem víðar verið mjög hálir um tíma. Síðastliðið fimmtudagskvöld var kallaður út dráttarbíll á Borðeyri til að aðstoða bílstjóra smábíls sem hafði farið út af rétt fyrir utan Hlaðhamar í Hrútafirði. Bíllinn sem var af MMC Space Wagon gerð hafði snúist við á veginum og hafnað með afturendann út í skurði, en skurðurinn var hálfur af frosnu vatni þannig að bíllinn fór bara vel út úr þessu. Bíleigandinn var Ameríkani sem átti afmæli þennan dag og hafði keypt bílinn í tilefni dagsins. 

Hann hafði aldrei keyrt jafn hálan veg eins og var þarna þennan dag. Vel gekk að spila hann upp og hélt hann svo sína leið til Hólmavíkur. Þegar þangað kom vildi ekki betur til en svo að bifreiðin rann afturábak niður Læknishallann á Hólmavík við leikskólann Lækjarbrekku og á kyrrstæðan bíl við Brunnagötuna svo hægra frambrettið og hurðin á þeim bíl stórskemmdist. Engar frekari sögur fara af ferðalagi og ævintýrum afmælisbarnsins.

ljósm. Sveinn Karlsson