Aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum

Aðsend grein: Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir
Vinstrihreyfingin grænt framboð kynnti á dögunum aðgerðaáætlun sína í atvinnu-, byggða og samgöngumálum. Forgangsverkefni er að ráðast í fjárfestingar í innviðum samfélagsins, samgöngukerfinu og aðgerðir til að jafna búsetuskilyrði.  Á meðal þess sem við leggjum til er að landið verði breiðbandsvætt á þremur árum þannig að jafn aðgangur allra landsmanna án tillits til búsetu sé tryggður með sömu gæðum og sama verði.

Bundið verði í lögum að landsbyggðin fái hlutdeild í nýjum störfum í þjónustu á vegum hins opinbera, gert verði stórátak til að bæta fjárhag og aðstöðu sveitarfélaganna með verulega auknum tekjum og breiðari tekjustofnum. Sveitarfélög sem búa við skerta tekjustofna fái a.m.k. 5 milljarða króna í rauntekjuaukningu til að bæta stöðu sína auk fjármuna til að hrinda í framkvæmd ýmsum umbótaverkefnum. Ennfremur verði flutningskostnaður, húshitunar og orkukostnaður jafnaður sem og aðgengi og kostnaður vegna náms og heilbrigðisþjónustu. Við teljum einnig nauðsynlegt að þjónustukvaðir sem taki til landsins alls verði lagðar á einkarekin þjónustufyrirtæki með markaðsráðandi eða einokunaraðstöðu.

Umgjörð nýsköpunar og atvinnuþróunarstarf

Ásamt því að gripið verði til markvissra aðgerða til að bæta og jafna skilyrði til atvinnurekstrar í landinu þarf að leggja aukinn kraft í nýsköpun og stuðning við tækni- og þekkingargreinar og hlúa sérstaklega að nýjum fyrirtækjum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum í uppbyggingu. VG hefur m.a lagt fram frumvarp á Alþingi þess efnis að tekinn verði upp sérstakur skattaafsláttur fyrir sprotafyrirtæki og ný fyrirtæki sem eru að stíga fyrstu skrefin. Nauðsynlegt er að fjölbreytni verði ætíð höfð að leiðarljósi í allri stefnumótun og þróunarvinnu á sviði atvinnumála. Við teljum að setja þurfi aukið fé í almennt atvinnuþróunarstarf á landsbyggðinni með eflingu atvinnuþróunarfélaga og fjármagni í staðbundna nýsköpunarsjóði.

Landbúnaður og sjávarútvegur gegna mikilvægu byggðahlutverki

Mikilvægt er að vaxtarmöguleikar innan hefðbundinna atvinnugreina verði nýttir. Til að styrkja og stuðla að framþróun í landbúnaði vill VG m.a. auðvelda kynslóðaskipti í greininni með lánasjóði ungs fólks til jarðakaupa og að réttur til framleiðslustuðnings sé bundin við búsetu á lögbýli en ekki eignarhald. Einnig viljum við hindra að verslun með bújarðir hnekki byggð í sveitum landsins. Ennfremur þarf að gera reglur um fullvinnslu afurða þannig úr garði að heimaunnin matvæli verði raunhæfur kostur þeirra bænda sem kjósa að selja sína vöru sjálfir. Ferðaþjónustu og aðrar greinar sem tengjast náttúru, sögu, menningu og ímynd landsins þarf að styðja sérstaklega og búa ferðaþjónustunni þá umgjörð í stjórnskipun og lögum sem henni ber sem mestu vaxtargrein íslensks atvinnulífs undanfarna áratugi. Til þess að tryggja betur stöðu byggðalaga gagnvart meðferð aflaheimilda og stemma stigu við leigubraski með veiðiheimildir vill flokkurinn að 5% þeirra veiðiheimilda sem leigðar eru á hverju fiskveiðiári gangi til ríkisins og komi til endurúthlutunar að ári. Liður í sjálfbærri þróun sjávarútvegs er aukin áhersla á notkun vistvænna veiðarfæra með hliðsjón af verndarhagsmunum lífríkis og hafsbotns. Þá vill VG að undirbúin verði tilraun með að heimila sumarveiðar á minni bátum með handfrjálsum búnaði frá sjávarjörðum.

Forgangsverkefni að bæta möguleika til framhaldsmenntunar

Atvinnulíf á landsbyggðinni sækir kraft í menntun og öflugt skólastarf. Því viljum við gera það að sérstöku forgangsverkefni að bæta möguleika almennings til menntunar, starfsmenntunar og símenntunar og bæta aðgengi að menntun á framhaldsskóla- og háskólastigi. Þannig styrkjum við innviði samfélagsins og sköpum skilyrði fyrir byggðirnar að sækja fram á jafnréttisgrunni. 

Efnahagslegur stöðugleiki undirstaða framfara

Með samþættum og markvissum aðgerðum má endurvekja trú á framtíðina á þeim svæðum vítt og breytt um landið sem hafa átt undir högg að sækja, ekki síst í þessu kjördæmi. Til þess þarf stefnan í efnahags- og atvinnumálum að styðja við bakið á atvinnulífinu og byggðunum en ekki vinna gegn þeim. Með því að innleiða stöðugleika skapast hagstætt umhverfi til nýsköpunar og þróunar og til reksturs útflutnings- og samkeppnisgreina. Stóriðjustopp og efnahagslegur stöðugleiki í kjölfarið eru, ásamt raunhæfu gengi á krónunni og lægri vöxtum, lykilatriði í þessu sambandi.

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru og hvet ég fólk til að kynna sér víðtækar tillögur VG í atvinnu- og byggðamálum.

Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir, Tálknafirði
2. sæti á lista Vinstri grænna fyrir Alþingiskosningar 2007